17.3.2013 | 23:51
Þátttaka Hellis á Íslandsmóti skákfélaga 2012-2013
1. deild
Það var ljóst í aðdraganda mótsins að það var mikið lagt undir hjá nokkrum félögum til að vinna titilinn. Á sama tíma voru styrkir til starfsemi félagsins skornir niður svo einhver staðar hlaut slík staða að koma niður þannig að félagið missti marga sterka skákmenn. Auk þess var tekin sú ákvörðun að vera með enga erlenda skákmann í fyrri hlutanum, treysta á þá félagsmenn sem eftir voru og láta Hjörvar leiða liðið. Útlitið hjá A-sveit félagsins var því allt annað en glæsilegt í upphafi móts. Eins og oft gerist við slíkar aðstæður þá þjappa menn sér saman. Það hefur því sjaldan verið auðveldara að safna í lið en fyrir fyrri umferðina og meira að segja það auðvelt að félagið þurfti að bæta við sveit frá árinu áður og dugði það samt varla til svo allir kæmust fyrir. Á síðustu metrunum bætist svo í hópinn skákferðamaður frá Ítalíu, Luca Barillaro sem kom hingað á eigin vegum til að taka þátt í keppninni. Þráinn Vigfússon tefldi svo aftur eftir nokkurt hlé. Þeir stóðu báðir vel fyrir sínu og þéttu hópinn á neðri borðum í fyrri hlutanum. Í fyrri hlutanum fengum við Goðann, TB-b, Víkingaklúbbinn og TV. Það var því ljóst að fyrstu tvær viðureignirnar myndu skipta sköpum fyrir A-sveitina. Viðureignin við Goðann tapaðist 5-3 en það mátti samt ekki miklu muna að hagstæðari úrslit næðust. Í næstu viðureign gekk allt upp og við unnum mjög stóran sigur á b-sveit Bolvíkinga. Staðan eftir fyrstu tvær umferðirnar var því nokkuð góð en framundan voru tvær erfiðar viðureignir. Það hafði farið mikil orka í tvær fyrstu viðureignirnar og eins og nokkurt spennufall hefði orðið eftir þær, þannig að liðið náði sér aldrei á strik í seinni umferðinni á laugardaginn á móti Víkingaklúbbnum og sú viðureign tapaðist mjög stórt. Það var allt annað að sjá til liðsins á sunnudaginn þegar teflt var við TV og hart barist á öllum borðum. Úrslitin voru líka hagstæðari þótt viðureignin hafi tapast með nokkrum mun. Eftir fyrri hlutann var A-sveitin í 6. sæti með 6v forskot á Akureyringa. Þeir höfðu verið að skora svipað og við gegn sterkari sveitunum og áttu b-sveit Bolvíkninga eftir í seinni hlutanum. Það var því ljóst að viðureignin við Akureyringa í 5. umferð í seinni hlutanum myndi skipta sköpum milli liðanna. Fyrir seinni hlutann styrktum við hópinn með tveimur erlendum skákmönnum, Amin Bassem og Yury Shulman sem tóku þátt í Reykjavíkurskákmótinu sem fram fór á undan. Það veitti ekki af því því mætingin var ekki eins góð og í fyrri hlutanum. Þar kom m.a. til að margir Hellismenn höfðu verið að tefla mikið þar á undan og undirbúningur og framkvæmd Reykjavíkurskákmótsins og fleiri móta þar á undan höfðu mætt nokkuð á okkar mönnum. Við náðum samt að stilla upp nokkuð þéttu liði gegn SA sem einnig höfðu bætt við sig tveimur mönnum frá fyrri hlutanum og nokkuð öruggur 5-3 sigur vannst. Staðan var því orðin vænleg þegar komið var í viðureignina í 6. umferð á móti TR. Þá kom það sama upp eins og á móti Víkingaklúbbnum í fyrri hlutanum að liðið var ekki alveg eins sterkt í þeirri viðureign og eins og eitthvað spennufall hefði orðið þannig að fátt gekk upp og viðureignin tapaðist stórt. Á meðan unnu Akureyringar stóran sigur á b-sveit TB en samt ekki jafn stóran og við gerðum. Staðan í fallbaráttunni fyrir síðustu umferð var því þannig að SA þurfti að fá a.m.k. 3v á móti Víkingaklúbbnum og á meðan þurftum við að tapa öllum skákum á móti TB. Við töldum engar líkur á því að sú staða kæmi upp enda koma það á daginn að SA fékk skell á móti Víkingaklúbbnum sem með því tryggði sér sigur í deildinni. Á meðan áttum við hörku viðureign við a-sveit TB sem lauk með jafntefli 4-4 eftir að Andri kreisti vinning út úr langri skák við Jóhann Hjartarson og Hjörvar hélt jafntefli í erfiðri stöðu á móti Baklan sem var síðasta skák mótsins til að klárast. Niðurstaðan var því 6. sætið, 6v á undan SA og 2,5v á eftir Goðinn-Mátar þar segja má að innbyrðis viðureign félaganna í 1. umferð skilji á milli. Fyrir A-sveit félagsins tefldu: Amin Bassem, Yury Shulman, Hjörvar Steinn Grétarsson, Davíð Ólafsson, Andri Grétarsson, Omar Salama, Lenka Ptácníková, Þráinn Vigfússon, Bragi Halldórsson, Luca Barillaro, Baldur A. Kristinsson, Rúnar Berg, Arnaldur Loftsson, Sæberg Sigurðsson og Gunnar Björnsson.
2. deild.
B-sveit félagsins tefldi í 2. deild og leiddi brotthvarf sterkra skákmanna til þess að sveitin veiktist við að þeir sem höfðu skipað efstu borðin færðust upp í a-liðið. Við mátum því stöðuna þannig að mest hætta væri á að B-sveitin félli niður. Mætingin var góð og sveitin var samt ágætlega skipuð í fyrri hlutanum. Innflutningur skákmanna í 1. deild veldur því að 2. deildin er mun sterkari en áður var og því fyrirfram ljóst það þyrfti flest að ganga upp til að sveitin héldi sér uppi. Í fyrri hlutanum litu viðureignir oft ágætlega út lengi framan af en þegar upp var staðið var uppskeran ekki eins mikil og hefði getað orðið. Í fyrri hlutanum gerði b-sveitin 3-3 jafntefli við Fjölni-A og TV-B en viðureignirnar við Goðann-Máta B og Hauka-A töpuðust. Sveitin var í þriðja neðsta sæti eftir fyrri hlutann en stutt var í næstu sveitir fyrir neðan sem við áttum eftir að tefla við í seinni hlutanum. Staðan var því ekki vonlaus en vissulega erfið í ljósi þess að liðsuppstillingin var ívið veikari í seinni hlutanum. Í seinni hlutanum mætti sveitin b-sveit TR, a-sveit TG og SR-a. Þessar viðureignir töpuðust allar þannig b-sveitin féll niður í 3. deild. Vonir standa hins vegar til að vera hennar verði ekki löng þar.
B-sveitina skipuðu eftirtaldir skákmenn: Baldur A. Kristinsson, Rúnar Berg, Arnaldur Loftsson, Sæberg Sigurðsson, Gunnar Björnsson, Gísli Hólmar Jóhannesson, Ögmundur Kristinsson, Vigfús Ó. Vigfússon, Helgi Brynjarsson, Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir, Sigurður Áss Grétarsson og Jóhanna Björg Jóhannsdóttir.
3. deild.
Fyrirfram reiknuðum við með að c-sveitin myndi sigla lygnan sjó í 3. deildinni. Það kom líka á daginn. Sveitin sveiflaðist í kringum miðjuna en endaði mótið á góðum sigri sem kom sveitinni í efri hlutann. Árangur liðsmanna var nokkuð jafn og góður og sveitin skildi ekki við þær efstu sveitir sem hún mætti án þess að merkja við þær.
C-sveitina skipuðu eftirtaldir skákmenn: Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir, Sigurður Áss Grétarsson, Jóhanna Björg Jóhannsdóttir, Friðrik Örn Egilsson, Örn Stefánsson, Kristján Halldórsson, Hilmar Þorsteinsson, Elsa María Kristínardóttir, Hilmir Freyr Heimisson og Kristófer Ómarsson.
4. deild.
Félagið var með tvær sveitir í 4. deild að þessu sinni, þ.e. d-sveitina og svo unglingasveit.
D-sveitin var í svipaðri stöðu eins og c-sveitin í 3. deild. Það var ekki líklegt að hún myndi blanda sér í toppbaráttuna eins og kom á daginn en jafnframt var hún það sterk að hún átti að geta spjarað sig ágætlega í 4. deild sem einnig kom á daginn. Eftir fyrri hlutann var d-sveitin að vísu meðal efstu sveita eftir vaska framgöngu þar sem m.a. var gert 3-3 jafntefli við c-sveit Víkingaklúbbsins. D-sveitin átti þá eftir að mæta flestum af sterkari sveitunum þannig að ekki voru miklar líkur á því að héldi þeirri stöðu. Sveitin stóð ekki síður vel í seinni hlutanum og endaði að lokum í 7. sæti. Það var eins með d-sveitina og c-sveitina að hún tók alltaf vinninga af efstu sveitum þannig að hún þarf ekki að styrkjast mikið til að blanda sér af alvöru í toppbaráttuna í 4. deild.
Eftirtaldir skákmenn tefldu fyrir d-sveitina: Elsa María Kristínardóttir, Hilmir Freyr Heimisson, Óskar Maggason, Jón Gunnar Jónsson, Tómas Árni Jónsson, Dawid Kolka, Kristófer Ómarsson, Gunnar Nikulásson, Ingvar Egill Vignisson, Sigurður Freyr Jónatansson, Haraldur Magnússon, Felix Steinþórsson, Róbert Leó Jónsson, Steinþór Baldursson og Andri Steinn Hilmarsson.
Unglingsveitin stóð sig einnig mjög vel í keppninni. Sveitin vann 3 viðureignir og tapaði fjórum og endaði í 13 sæti af 18 sveitum. Þessi árangur náðist þrátt fyrir að 3 sterkustu liðsmennirnir sem gátu teflt með sveitinni tefldu mjög lítið með henni. Þannig tefldi Hilmir Freyr Heimisson með d- og c-sveitunum allan tímann og Dawid Kolka tefldi eingöngu með d-sveitinni eftir að hafa misst af fyrstu þremur umferðunum vegna veikinda. Felix Steinþórsson tefldi svo nokkurn veginn að jöfnu með unglingasveitinni og d-sveitinni. Liðsmennirnir voru því margir ungir að árum og stóðu samt fyrir sínu en flesta vinninga í unglingasveitinni fengu Alec Elías Sigurðarson eða 5v af sex, Óskar Víkingur Davíðsson 4,5v af 7 og Heimir Páll Ragnarsson 3,5v af 7.
Eftirtaldir skákmenn tefldu fyrir unglingasveitina: Felix Steinþórsson, Róbert Leó Jónsson, Hildur Berglind Jóhannsdóttir, Heimir Páll Ragnarsson, Alec Elías Sigurðarson, Óskar Víkingur Davíðsson, Oddur Þór Unnsteinsson, Sigurður Kjartansson, Halldór Atli Kristjánsson og Sindri Snær Kristófersson.
Barna- og unglingastarf
Tenglar
Ýmsir tenglar
- Skák.is Chess News
- Skáksamband Íslands The Chess Federation of Iceland
- Skákakademía Reykjavíkur Skákakademía Reykjavíkur
- Skákhornið Icelandic Chess Discussion Board
- Skákvörur Skádæmi, þrautir og verkefni
- Skákfélag fjölskyldunnar Skákfélag fjölskyldunnar
- Krakkaskák Kennsluvefur fyrir krakka
Mót 2012
- Meistaramót Hellis 2012 Meistaramót Hellis 2012
- Íslandsmót unglingasveita 2012 Íslandsmót unglingasveita 2012
Eldri mót
- Hraðskákmót Hellis 2011 Hraðskákmót Hellis 2011
- Meistaramót Hellis 2011 Meistaramót Hellis 2011
- Stigamót Hellis 2011 Stigamót Hellis 2011
- Stigamót Hellis 2010 Stigamót Hellis 2010
- Hraðskákmót Hellis 2010 Hraðskákmót Hellis 2010
- Meistaramót Hellis 2010 Meistaramót Hellis 2010
- Unglingameistaramót Hellis 2009 Unglingameistaramót Hellis 2009
- Mjóddarmót Hellis 2009 Mjóddarmót Hellis 2009
- Meistaramót Hellis 2008 Meistaramót Hellis 2008
- Hellir Youth 2008 Hellir Youth 2008
- Hellir Youth Tournament III 2008 Hellir Youth Tournament III 2008
- Fiskimót 2008 Fiskimót 2008
- Stigamót Hellis 2008 Stigamót Hellis 2008
- Helgarskákmót Hellis og TR 2008 Helgarskákmót Hellis og TR 2008
- Meistaramót Hellis 2007 Meistaramót Hellis 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.