20.6.2007 | 22:04
Fall er fararheill, (hversu ömurlegt orðtak er það annars?)
Björn Þorfinnsson skrifar: Þá er fyrstu umferð í Fiskmarkaðsmóti Hellis lokið farsællega. Það er alltaf smá beigur í skipuleggjendum þegar fyrsta umferð alþjóðlegra móta er að hefjast og því er spennufallið mikið þegar umferðin er komin í gang. Ingvar Bölvaður Jóhannesson hjálpaði ekki upp á auma hjartastarfsemi undirritaðs þegar hann svaraði farsímanum sínum á slaginu kl. 17.00 og sýndi óskarsverðlaunaframmistöðu í því að þykjast vera að vakna. Ingvar á einmitt heima í nágrenni Keflavíkur og því hefði það tekið hann amk 20-25 mín. að bruna á vettvang. Eftir 1 mín. taugaáfall mitt kom hinsvegar í ljós að mörðurinn var að leggja bílnum sínum fyrir framan skákstað og því hófst mótið nokkurn veginn á réttum tíma eftir enn eina óskarsverðlaunaræðuna frá Gunnari Björnssyni, aðalskákstjóra mótsins.
Ég tefldi við hinn unga Hjörvar Stein sem hefur verið á mikilli siglingu undanfarið. Það er afar mikilvægt fyrir stigahærri skákmann að halda virðingu ungviðsins eins lengi og unnt er með því að berja á þeim eins og kostur er. Því mætti ég til leiks með það eitt að markmiði að vinna skákina sama hvað það kostaði. Í ljós kom að ég hafði engan veginn efni á bölvuðu kaupverðinu og því er virðing Hjörvars fyrir mér gjörsamlega farinn og kemur aldrei aftur (ef hún var aldrei til staðar þá er drengurinn náttúrulega steindauður :)). Skákin varð æsispennandi (sumar stöðurnar í stúderingunum voru algjörlega absúrd) og aldrei þessu vant tókst mér að komast í tímahrak sem er eitthvað sem ég er frekar óvanur að lenda í. Eftir byrjunina var ég hæstánægður með stöðuna sem kom upp og þegar mér gafst færi á mannsfórn fyrir talsverða sókn þá hikaði ég ekki við að grípa gæsina. Í framhaldinu rataði ég ekki á réttu leiðina, í stað þess að tefla sóknina rólega fór ég út í þvingað afbrigði sem gaf mér kost á þráskák en þar sem ég ætlaði nú að halda virðingunni þá íhugaði ég það ekki í eina einustu sekúndu. Upp kom fáránleg staða þar sem ég var með hrók og þrjú peð gegn tveimur riddurum Hjörvars (auk þess sem auðvitað var nóg af öðru liði á borðinu). Hinsvegar áttaði ég mig hægt og rólega á því að ég var í afar djúpum skít því riddararnir hótuðu gjörsamlega öllu illu og ég átti nánast engan tíma eftir. Ég á reyndar eftir að athuga í tölvunni hvort ég átti einhverja von í þeirri stöðu en a.m.k. fann ég enga vörn yfir borðinu og Hjörvar kláraði skákina afar smekklega. Í lokin upplifði maður þá algjörlega fáránlegu tilfinningu að vera í öngum sínum yfir því að brenna svona allar brýr að baki sér en að sama skapi stoltur af litla gríslingnum sem var að sauma að manni. Ókei, ég skal vera hreinskilinn, ég íhugaði náttúrulega að lemja hann í eitt andartak, jafnvel tvö, en svo varð ég stoltur :) Núna er það ekkert sem býður nema ísköld sturta, svo upp í rúm, þumallinn upp í munn og hnéin upp að bringu. Fósturstellingin er sennilega áhrifaríkasta meðal við skákþunglyndi sem til er en þá er líka eins gott að halda einbeitingunni "and keep sucking that thumb".
Því miður náði ég ekki að fylgjast með öðrum skákum sem skildi. Bragi vann Sævar í uppgjöri alþjóðlegu meistaranna. Mér sýndist Sævar hafa fórnað peði fyrir sóknarfæri og einhver var nú pressan fannst mér. Það verður fróðlegt að sjá þá skák en snillingurinn Eyjólfur Ármanns ætlar að henda þeim inn á netið fyrir okkur Hellismenn. Lenka sigraði Jorge Fonseca nokkuð örugglega sýndist mér og IM Walaa frá Egyptalandi vann Ingvar. Ég sá þó ekki betur en að Ingvar hefði verið með töluvert betra mest allan tímann og a.m.k. þannig að þessi skák átti aldrei að tapast. Mótið er þó hreint ekki búið og á morgun er mikilvægt að girða sig í brók og hefna! Að lokum gerðu Omar og Andrzej jafntefli eftir harða baráttu. Ég held samt að Omar hljóti að hafa staðið til vinnings á tímabili og væntanlega nagar hann sig létt í handarbökin að hafa ekki náð að landa punktinum.
Önnur umferð mótsins hefst á morgun kl. 17.00 í sal Skáksambandsins. Sjóðheitt á könnunni fyrir gesti og gangandi!
Kveðja Björn Fóstur Þorfinnsson.
Meginflokkur: Spil og leikir | Aukaflokkur: Skák | Breytt s.d. kl. 22:18 | Facebook
Barna- og unglingastarf
Tenglar
Ýmsir tenglar
- Skák.is Chess News
- Skáksamband Íslands The Chess Federation of Iceland
- Skákakademía Reykjavíkur Skákakademía Reykjavíkur
- Skákhornið Icelandic Chess Discussion Board
- Skákvörur Skádæmi, þrautir og verkefni
- Skákfélag fjölskyldunnar Skákfélag fjölskyldunnar
- Krakkaskák Kennsluvefur fyrir krakka
Mót 2012
- Meistaramót Hellis 2012 Meistaramót Hellis 2012
- Íslandsmót unglingasveita 2012 Íslandsmót unglingasveita 2012
Eldri mót
- Hraðskákmót Hellis 2011 Hraðskákmót Hellis 2011
- Meistaramót Hellis 2011 Meistaramót Hellis 2011
- Stigamót Hellis 2011 Stigamót Hellis 2011
- Stigamót Hellis 2010 Stigamót Hellis 2010
- Hraðskákmót Hellis 2010 Hraðskákmót Hellis 2010
- Meistaramót Hellis 2010 Meistaramót Hellis 2010
- Unglingameistaramót Hellis 2009 Unglingameistaramót Hellis 2009
- Mjóddarmót Hellis 2009 Mjóddarmót Hellis 2009
- Meistaramót Hellis 2008 Meistaramót Hellis 2008
- Hellir Youth 2008 Hellir Youth 2008
- Hellir Youth Tournament III 2008 Hellir Youth Tournament III 2008
- Fiskimót 2008 Fiskimót 2008
- Stigamót Hellis 2008 Stigamót Hellis 2008
- Helgarskákmót Hellis og TR 2008 Helgarskákmót Hellis og TR 2008
- Meistaramót Hellis 2007 Meistaramót Hellis 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (7.7.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.