Pistill Braga um Politiken Cup

Bragi_ThorfinnssonBragi Þorfinnsson skrifar: 

Þá er Politiken Cup mótinu í ár lokið, en helsti styrktaraðili mótsins var sem fyrr danska dagblaðið Politiken. Aðstæður og skipulagning á mótinu í ár voru til mikillar fyrirmyndar og fá Danirnir prik fyrir það. Þeir sem til þekkja sögðu mér að fara þyrfti langt aftur í tímann til að finna álíka góðar aðstæður á þessu sögufræga og skemmtilega móti. 

Óhætt er að segja að Íslendingar hafi sett sterkan svip á mótið í ár en 26 íslenskir skákmenn sátu þar að tafli. Hvert sem ég fór heyrði ég íslenskuna hljóma, eða rakst á einhverja Íslendinga. Það skapaði skemmtilega stemningu og lét mann líða eins og á heimavelli. Það var gaman að sjá hversu fjölbreytt flóran var, ungir sem aldnir,  allir með eitt sameiginlegt markmið,...nú skyldi leggja baunana að velli! 

Teflt var í Lo-Skolen (borið fram Elo-Skolen ) sem stendur rétt utan við borgina Helsingör, en íbúar þar eru 50-60.000 talsins. Helsingör er m.a. þekkt fyrir að vera sögusviðið í Hamlet, hinu fræga verki Shakespeare’s. Lo-Skolen er gríðarlega stór, eða um 18.500 ferkílómetrar, með 200 herbergjum og hefur hvert herbergi síma, sjónvarp, salernis- og sturtuaðstöðu. Þetta var því eins og á fínu hóteli og ekki undan neinu að kvarta. 

Ekki spillti fyrir að umhverfið í kringum staðinn er mjög fallegt, en þar ber að líta bæði skóga og strandir. Hægt var að fá lánuð hjól á staðnum og kynnast umhverfinu enn nánar. Mér þóttu hjólin ekki traustvekjandi og lét mér einn göngutúr nægja. Sumir höfðu með sér golfsettið og spiluðu golf, enda prýðilegir golfvellir í nágrenninu. Eitthvað sem skákmenn með golfbakteríuna geta hugleitt, ef mótið verður haldið á þessum stað, að ári. 

En víkjum þá að mótinu sjálfu. Það var mjög fjölmennt, en um 300 þátttakendur voru með og skilst mér að þar hafi met verið slegið í fjölda þátttakenda. Mér fannst þó einn stærsti gallinn á mótinu vera sá að of mikið af stigalágum andstæðingum voru með. Það hafði þau keðjuverkandi áhrif að aðeins stigahærri andstæðingar en þeir, unnu þá og fengu þar með fullt af vinningum. Þessir stigalágu andstæðingar tefldu því gjarnan við mun sterkari andstæðinga og gátu sett strik í reikninginn hvað varðar áfangamöguleika þeirra.  Danirnir taka því að mínu mati hugtakið ,,opið mót” of langt. Eðlilegra hefði verið að skipta niður í styrkleika-grúppur eins og þekkist t.d. á Czech-Open mótinu í Pardubice. 

BrondumÞátttakendur voru misjafnir eins og þeir voru margir en óhætt er að segja að einn þeirra hafi ,,stolið senunni”, en það var Jan nokkur Bröndum. Sá hafði þann háttinn á að mæta nánast án klæða í umferðir, var þó klæddur í fráhneppt leðurvesti svo að bumban fengi aðeins að njóta sín. (sjá mynd).  Síðan sat hann í jóga-stellingu við borðið og blótaði og bölvaði andstæðingnum á milli leikja. Ekki drauma-andstæðingur þarna á ferð. Það kom fáum á óvart að herra Bröndum var vísað úr mótinu eftir fjórar umferðir, vegna hegðunar sinnar. Það sem gerði útslagið, held ég, var það að hann var farinn að stela bjórum af skákmönnum á skákstaðnum. Danirnir sem eru öl-unnendur miklir gátu ekki liðið slíka hegðun og því þurfti Bröndum greyið frá að hverfa. Þeir eru með forgangsröðunina á hreinu í Danaveldi. Þú sleppur með að mæta á sprellanum í skákir, en snertirðu öller hjá öðrum manni þá teflir þú ekki meir. 

Herra Bröndum hafði því yfirgefið skákstaðinn áður en mér tókst að bjóða honum á næsta Reykjavíkurskákmót, sem er miður. Hann hefði orðið góð kynning fyrir skákíþróttina þar. 

Mótið gekk ágætlega hjá flestum og það var unnið, tapað og gert jafntefli. Ætlun mín í þessum pistli er ekki að fara út smáatriði í þeim efnum heldur vísa á mótstöfluna á http://politikencup.dk, ef menn vilja kynna sér úrslitin nánar. Það hefði þurft mann í fullri vinnu til að fylgjast með gengi íslenskra skákmanna, slíkur var fjöldi þeirra. Meira að segja Bjössi bróðir hefði mátt hafa sig allan við til að halda utan um það, þó ég efist ekki um að honum hefði tekist það. 

En skemmtilegu móti er lokið og vona ég að íslenskir skákmenn haldi uppteknum hætti og fjölmenni aftur að ári liðnu. Ég mæli sérstaklega með mótinu fyrir yngri kynslóðina, enda voru þau mörg hver að gera góða hluti í mótinu. Það er góð reynsla sem þau fá á móti sem þessu. En nú læt ég þessum pistli mínum lokið.

Bragi Þorfinnsson

Mynd:  Hér má sjá Braga að tafli á Politiken Cup.  Hér er hann að tefla við sænska stórmeistarann Jonny Hector sem hann vann í góðri skák.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Félagið

Taflfélagið Hellir
Taflfélagið Hellir

Burtséð frá öllum titlum - einfaldlega besta og flottasta félagið

Barna- og unglingastarf

Nýjustu myndir

  • 20180226 190425
  • 25487568 10155932818829719 8703472418909412982 o
  • 25487568 10155932818829719 8703472418909412982 o

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Framundan

Íslandsmótið í netskák 2013

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband