Pistill frá Mexíko

 

Laugardaginn 11. desember um kl. 14:00 lagði ég af stað út á Keflavíkurflugvöll. 36 klukkustundum síðar dró ég töskur mínar á eftir mér í átt að Hotel Caribe í Merida. Ég hafði ferðast frá Keflavík til Minneapolis, frá Minneapolis til Memphis þar sem allt minnir á Elvis Presley, og þaðan til Cancun, þar sem sandur á baðströndum er hvítur og hafið á litinn eins og heiðskýr himinn. Þegar rútan ók inn í Merida og ég virti fyrir mér húsin í þessari borg sem ég hafði búið í heil fjögur ár, fannst mér margt skrýtið.

 

Glerbrot ofan á húsveggjum, hundar með trýnið í ruslapokum á götunni, bílskrjóðar sem ættu helst heima í bílakirkjugarði, kassalöguð húsin – öll afgirt með hvössum girðingum. Ég fann til léttis við að vera aftur fluttur til Íslands.

 

Fyrir utan umferðarmiðstöðina í Merida leitaði ég eftir leigubíl. Fólk beið í röð. Þegar fyrsti leigubíllinn lagði upp að gangstéttinni og leigubílstjórinn steig út, bjóst ég að sjálfsögðu við að hann væri að leita sér að farþega. En, nei, hann skaust inn í húsasund þar sem hægt var að fá upphitaðan mat. Næsti leigubílstjóri á eftir gerði hið sama.

 

Þar sem biðröðin var löng og aðeins um kílómeters ganga að hótelinu, ákvað ég að draga töskurnar á eftir mér um myrkar götur miðborgarinnar.

 

Mánudaginn 13. desember var setningarathöfn þar sem fylkisstjóri Merida hélt stutta ræðu, sýnt var myndband frá síðasta móti og leikið var fyrsta leiknum. Ég sat aðeins tvo metra frá borðinu þar sem fyrsta leiknum var leikið, en sá ekki neitt, því að fimmtán ljósmyndarar og kvikmyndatökumenn þyrptust kringum borðið á meðan leiknum var leikið. Ég hefði kannski getað séð þetta í sjónvarpi næsta kvöld, en hafði samt takmarkaðan áhuga fyrir því. Ég meina, þegar áhorfendur sjá ekkert annað en ljósmyndara á grúfu yfir einhverju, hver er þá tilgangurinn með að sjónvarpa þessu? Ætti ekki að vera betra að vera á staðnum og fá að vera áhorfandi í friði?

 

Skákin byrjaði svo klukkan 18:00, stundvíslega, eða kl. 18:25 til að vera nákvæmur. Ég var með svart gegn alþjóðlegum meistara frá Kúbu, Aryam Abreu. Tefld var Sikileyjarvörn, sem ég er að basla við að læra upp á nýtt eftir að hafa gefið hana upp á bátinn fyrir nokkrum árum síðan. Ég fann ekki taktinn, en skákin vakti samt mikla athygli í salnum þegar ég lék smá fléttu sem því miður gekk ekki upp, en ef hún bara hefði... Það má taka fram að andstæðingurinn skrifaði alltaf leikina áður en hann lék og faldi það sem hann skrifað með penna. Slíkt má ekki eftir 1. júlí 2005, þar sem að andstæðingurinn er í raun að nota blaðið sem hjálpartæki til að sjá aðeins betur fram í tímann.

 

5r2/1b2rp1k/p5pp/3p4/1qpQ1N2/2N5/PP3PPP/R4RK1 b - - 0 24

 

 

Í þessari stöðu lék ég 24.-Dd6 og hafði þá ákveðan fléttu í huga. Því miður voru útreikningar mínir ekki alveg nógu nákvæmir og gekk þetta því ekki upp. 25. Rfxd5 He5 26. Had1 Hd8 27. Rf6+ Dxf6 28. Dxd8 Df3!??

 

3Q4/1b3p1k/p5pp/4r3/2p5/2N2q2/PP3PPP/3R1RK1 w - - 0 29

 

 

28.-Df3 er fallegur leikur, en því miður sást mér yfir að hvíta drottningin hafði vald yfir g5-reitnum, þannig að mátfléttan gengur ekki upp. Samt var gaman að leika þessum leik og fá sterk viðbrögð áhorfenda, sem þótti hugmyndin í það minnsta skemmtileg.

 

Önnur umferð var svo á þriðjudeginum 14. desember. Ég hafði hvítt gegn Romel Gutierrez. Hann var ekki með alþjóðleg stig, en tókst að fara heldur betur í taugarnar á mér á meðan við tefldum. Hann stóð oft upp á meðan skákin fór fram, jafnvel þegar hann átti leik, og labbaði kringum borðið. Þar að auki sat hann alltaf með pennann á lofti og titrandi fyrir framan mig. Ég kvartaði í skákstjóra yfir iði andstæðingsins, en hann sagði að þetta væri leyfilegt. Ég hélt það væri bannað að trufla andstæðinginn með nokkrum hætti, en hvað um það: ég fékk miklu betri stöðu, var með unnið en klúðraði þessu – enda var ég svo vitlaus að láta náungann fara í taugarnar á mér. Spurning hvort hefði verið tekið á þessu á Íslandi?

 

Q1b2r2/2k1b2p/1q4p1/N1pBP1p1/Pp6/8/1P3PPP/2R3K1 w - - 0 29

 

 

 

Hér get ég einfaldlega leikið 29. Dc6+ og unnið á léttan og leikandi hátt með frípeð yfir í endatafli með samlitum biskupum og hrók. En andstæðingurinn var á iði og ég pirraður yfir því að skákstjórinn vildi ekkert gera í málinu og lék af mér: 29.Rc6?? Svartur leikur  29.-Bb7 30.a5 Dxc6! og ég er með tapað tafl, með hrók á móti biskupaparinu eftir 31. Dxf8 Bxf8 32. Bxc6 Kxc6. Tapað tafl.

 

Ég var mjög pirraður eftir þessa skák og fór í langa göngu, mætti fjörutíu mínútum of seint í næstu skák sem hófst kl. 17:00 sama dag og tefldi hana eins og asni, gleraugnalaus meira að segja. Ég var kominn á neðsta borð og heppinn að fá ekki skottu. Andstæðingurinn var ungur strákur, Moreno Mendoza, sem ekki hefur alþjóðleg stig frekar en fyrri andstæðingurinn, og þar sem ég hafði ekki náð mér niður eftir fyrri skákina um morguninn tefldi ég hroðalega, lék af mér heilum manni, en náði samt jafntefli. Hann bauð og ég þáði. Svona var lokastaðan, en ég var svartur:

 

8/1p5p/p5p1/3kp1B1/3p2P1/1P5P/P3K3/8 w - - 0 33

 

 

Heppinn með jafntefli og skapið komið í lag, 4. umferð hófst kl. 11:00 (takið eftir breytilegum tíma á umferðum) og andstæðingurinn var 14 ára strákur frá Yucatan, Raul Duarte, sem tefldi bara helvíti vel. Ég hafði talað við Gunnar Björnsson á Messenger kvöldið áður og hann að sjálfsögðu stappað í mig stálinu. Slíkur stuðningur er mikils virði þegar illa gengur. “You’ll never walk alone” eins og gott knattspyrnulið syngur og Hellismenn mættu gera að sínu: “Þú gengur aldrei einn,” enda gengur lítið þegar maður er einn. Jæja.

 

Teflt var eitthvað furðulegt afbrigði af Sikileyjarvörn þar sem ég hafði hvítt, en ég get tekið það fram strax, að fyrstu sex skákirnar mínar hafa verið tefldar í Sikileyingnum, þannig að ég kem aftur til Íslands vel bræddur í þeim fræðum. Ég tefldi byrjunina reyndar mjög passívt, en ákvað að prófa lokaða Sikileyinginn, sem hann Stefán Freyr Guðmundsson gaf mér kennslustund í síðasta sumar á Stigamóti Hellis. Þetta var gífurlega erfið skák, ég missti fljótt frumkvæðið og lenti í vörn, en náði að skipta upp í hagstætt endatafl þar sem andstæðingurinn var með lélegan biskup, en ég með góðan. Mér tókst að nýta þann mun.

 

3bq3/pp4k1/2n4p/2pNp1pP/P3Q1P1/2PP4/BP4K1/8 w - - 0 41

 

41.d4! og með biskup á b1 og drottningu sem ryðst inn í svörtu vörnina lítur þetta vel út. En svartur verst vel. 41.-cxd4 42.Bb1 De6 43.Dh7+ Kf8 44.Dh8+ Dg8 45.Dxh6 Dg7 46.Dd6+ Be7 47.Dc7 Bd8 48.Dd6+ Be7 49.De6 Rd8? (Betra hefði verið Df7, en ég hlýt samt að vinna þetta með frípeðinu á h-línunni). 50.Dd7 Bf6 (annars kemst hvíti biskupinn í sóknina) 51.Df5 gefið.

 

3n1k2/pp4q1/5b2/3NpQpP/P2p2P1/2P5/1P4K1/1B6 b - - 0 51

 

 

 

Í fimmtu umferð fékk ég enn einn stigalausan andstæðinginn. En hann sagðist samt hafa verið með 2240 FIDE stig síðast þegar hann tefldi, eða fyrir um 8 árum. Hann finnst hins vegar hvergi á skrá, og væri nú gott ef hægt væri að finna kauða, annars á ég eftir að tapa ansi mikið af stigum á þessu móti, þó svo að ég hafi unnið hann, en meðalstig andstæðinga skipta máli. Það er óþægilegt að fá svona harðan jaxl sem maður veit ekkert um og er skráður stigalaus á töfluna. Hann heitir Ramon Godinez og er frá Mexíkó.

 

Ég var með svart og drap eitrað peð á b2 í skákinni. Ramon var langt á undan í liðskipan og hefði með réttu átt að rúlla mér upp, en eitthvað klikkaði þetta hjá honum.

 

Í þessari stöðu tek ég eitraða peðið á b2 með drottningu, 11.-Dxb2.

 

rnb1k2r/1p1p1ppp/pq6/3Np3/4P1n1/3QP3/PPP1N1PP/R3KB1R b KQkq - 0 10

 

 

 

Það mætti skýra þessa skák í löngu máli, en ég ætla ekki að gera það. Í stuttu máli, þá varðist ég vel og vann.

 

Með 2.5 vinninga af 5 mögulegum fékk ég svo aftur alþjóðlegan meistara, Garcia Martinez Silvano. Fékk ég aftur svart og enn var tefld Sikileyjarvörn.

 

Þetta hafði verið ágætlega tefld skák þegar Silvano lék af sér í 30. leik: Kh2?

 

5r2/R4bkp/3p1pp1/1p1Q4/4PP2/1N5P/PPq3PK/8 b - - 0 30

 

 

 

Nú á ég með léttum leik að halda jafntefli eftir 30.-Df2! en reyndi að vinna. Ég mat stöðuna einfaldlega rangt, hélt að biskupinn væri sterkari í þessu endatafli, en svo er ekki. Riddarinn er nefnilega óþægilegur og hefði ég átt að slátra honum við fyrsta tækifæri. En svona er þetta.

 

Nokkrum leikjum síðar kemur þessi staða upp og hefði ég þá átt að leika Bxb3 og fylgt eftir með Dxb3 og jafntefli hangir í loftinu.

 

5rk1/3R1b1p/3Q1pp1/1p6/4P3/1N2q2P/PP4P1/7K b - - 0 34

 

 Því miður tók ég upp vitlaust plan, og lék 35.-Db1+ Nokkrum leikjum síðar kom þessi óþægilega staða upp, þar sem ég hugsaði næstum í klukkustund án þess að finna eina leikinn – sem Fritz fann svo á einni sekúndu.

 

4r1k1/4qb1p/5Qp1/1p6/1P2NR2/7P/6PK/8 b - - 0 41

 

Þetta er virkilega óþægileg staða fyrir svartan. Við skoðuðum þetta eftir skákina en tókst ekki að finna réttu vörnina í sameiningu. Ég lék 41.-h6? en rétti leikurinn er 41.-Bc4! og svörtum tekst að verjast með Hd8 og Dg7. Þetta er svo einfalt þegar maður er búinn að sjá það á skjánum. En yfir borðinu var þetta okkur báðum ósýnilegt. Nokkuð merkilegt!

 

Eftir 42.Dd4 Hd8 43. Rf6+ Kf8 kom leikur sem mér hafði yfirsést. Hinn gullfallegi 44.Rd5! - hvítur hótar fallegu máti og vinnur skiptamun.

 

3r1k2/4qb2/6pp/1p1N4/1P1Q1R2/7P/6PK/8 b - - 0 44

 

 44.-Ke8 45.Rxe7 Hxd4 46.Hxd4 Kxe7 og svartur þrjóskast áfram í nokkra leiki enn, leyfir hvítum að hafa aðeins fyrir sigrinum.

 

Þannig er þá staðan hjá mér í dag: með 2.5 vinninga eftir sex umferðir. Alls ekki sáttur við fyrstu þrjár skákirnar en mun ánægðari með næstu þrjár. Þrjár umferðir eru eftir á mótinu og þýðir ekkert annað en að tefla af grimmd. Það er frí í dag, föstudaginn 17. desember, sit ég uppi í rúmi á hótelherbergi með Pentium II fartölvuna mína gömlu og hugsa til góðra skákfélaga heima á Íslandi, sem vonandi fá einhverja ánægju af lestri þessarar litlu greinar.

 

Næsta umferð kl. 17:00 á morgun og ég held ég skelli mér bara í bíó í dag eftir að hafa klárað þessa grein og eina litla grein um heimspeki.

 

Kærar skákkveðjur heim!

 

Áfram Hellir!

 

Hrannar Baldursson

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af sjö og tuttugu?
Nota HTML-ham

Félagið

Taflfélagið Hellir
Taflfélagið Hellir

Burtséð frá öllum titlum - einfaldlega besta og flottasta félagið

Barna- og unglingastarf

Nýjustu myndir

  • 20180226 190425
  • 25487568 10155932818829719 8703472418909412982 o
  • 25487568 10155932818829719 8703472418909412982 o

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Framundan

Íslandsmótið í netskák 2013

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband