Ber er hver að baki...

FMÍBjörn Þorfinnsson skrifar: Þá er 2.umferð Fiskmarkaðsmótsins lokið eftir harða baráttu. Umferðin hófst mjög skemmtilega því Hjördís móðir Hjörvars mætti á skákstað með eina rosalegustu súkkulaðiköku sem undirritaður hefur séð lengi. Svokölluð "fitubomba" eins og Rúnar Berg orðaði það. Hef ég hana grunaða um að reyna að lina þjáningar aðalskipuleggjanda mótsins eftir gróflega móðgun labbakútsins litla í fyrstu umferð. 1100 kaloríum síðar hafði ég fyrirgefið syninum.

Með súkkulaðikremið upp á enni settist ég sæll og glaður gegn Braga litla bróður. Sennilega var það sykurinn sem gerði það að verkum að ég gat ekki annað en hugsað um lilla labbandi um hlandblautan og aumingjalegan í sveitinni í gamla daga - litli krúsí músí. Manni er nú frekar hlýtt til brósa og því gat ég ekki með nokkru móti grafið upp sigurviljann. Ég gaf honum því jafntefli.

Sykurinn fór hinsvegar þveröfugt í aðra keppendur því barist var til síðasta manns í öðrum skákum. Ingvar knésetti Jorge í klassískri Ingvars skák. Allt grjóttryggt, komið í veg fyrir mótspil andstæðingsins, mönnunum komið í ákjósanlegar stöður og svo nuddast í gegn með helmorkið a-peð sem helsta vopn. Líklega hljómar þetta sem fyrsti kafli í "How to play chess" en ekki kann ég þetta, fjandakornið. "Annaðhvort er maðurinn mát eða ég er out" er mitt mottó.

Lenka vann Andrzej þegar hinn afskaplega geðþekki Pólverji virtist hafa gleymt sér og fallið á tíma. Það var miður því ég sá ekki betur en að staðan hafi verið í himnalagi. Ég bið þó lesendur að taka öllu með fyrirvara , ég fékk mér eina kökusneið til og rjóminn var bara allstaðar.

Hjörvar og Omar tefldu algjörlega í botn. Samkvæmt Omari var Hjörvar ekki alveg með byrjunina á hreinu og leyfði svörtum að leika d5 sem er víst alls ekki gott. Omar fékk því rjómastöðu sem og smá slettu á kökusneiðina. Skömmu síðar kom Hjörvar fram í kaffistofu hristandi hausinn. Hann hafði leikið af sér peði auk þess sem Omar hafði biskupaparið til að leika sér með í endataflinu. Horfur slæmar, skyggni dapurt, stinningskaldi. Hjörvar gefst samt aldrei upp fyrr en í fulla hnefana sem er ákjósanlegur eiginleiki. Hann sullaðist og bullaðist, fram og tilbaka. Staðan fór samt óhjákvæmilega versnandi en samt þurfti Omar að vanda til við úrvinnsluna. Að lokum skipti Omar upp á of mikið af peðum á kóngsvæng og Hjörvari tókst að fórna riddaranum sínum á a-frelsingja Omars sem þýddi það að svartur hafði biskup og h-peð en því miður var um vitlaust horn fyrir biskupinn að ræða. Glæsilegt baráttujafntefli hjá Hjörvari en Omar getur enn nagað sig í handarbökin. Hann ætti að hafa 2 vinninga miðað við hvernig skákirnar hafa þróast en einhvern veginn renna sigrarnir honum úr greipum. Innst inni í ísköldu hjartanu vona ég að sú saga haldi áfram á morgun en svo má Omar vinur minn fara að vinna skákir!

Síðasta skákin til að klárast var skák Walaa gegn Sævari. Sú skák virkaði hreint út sagt frekar flókin og einhvern veginn fóru krítísku andartök skákarinnar framhjá mér. Mín upplifun af skákinni var á þessa leið: Sævar hóf peðaveiðar á drottningarvæng og gaf í staðinn talsverð færi á sér á kóngsvæng. Ég er nú alltaf svo bjartsýnn að ég hélt að Sævari væri að sleppa með þessi djörfu peðarán en í tímahraki andstæðingsins sem ég missti af virðist eitthvað hafa farið úrskeiðis - nú eða Walaa bara teflt svona fjandi vel. Sú mikilvæga lexía fyrir aðra keppendur átti sér stað að þegar Walaa hafði leikið 40.leik sínum í bullandi tímahraki þá bættust 15 mín. strax við klukkuna hans sem kom Sævari í opna skjöldu. Walaa hafði nefnilega gert mistök á skorblaði sínu og var bara búinn að skrifa 39.leiki sem gerði það að verkum að hann hélt að hann væri enn í miklu tímahraki í krítískri stöðu en viðbótartíminn sem bættist við gaf honum eðlilega tíma til að róa sig niður og finna besta leikinn. Ég kom alveg að fjöllum þegar Sævar spurði mig út í þetta og leitaði ráða hjá Gunnari sem kom okkur í skilining um það að klukkan telur sjálf leikina og þegar 40 sinnum hefur verið ýtt á klukkuna þá bætast 15 mín. sjálfkrafa við tímann. Í Íslandsmóti skákfélaga rennur hinsvegar tíminn út og klukkan byrjar að telja niður frá 30 mín. Þá er það undir skákmönnunum og dómara að sannreyna það að 40 leikjum hafi verið náð og oft gerir þetta það að verkum að menn leika oft 42-45.leikjum í miklum barningi og með tilheyrandi mistökum. Athyglisvert mál og í rauninni finnst mér að hanna ætti klukkuna þannig að hún skrái í "minni sitt" þegar að 40.leiknum er náð en bæti ekki við tímanum fyrr en viðkomandi er lætur sig "falla". Jafnvel með þeim skilyrðum að ef viðkomandi á kannski meira en 5-10 mín. eftir þá bætist tíminn strax við enda keppandinn ekki beint í tímahraki. Er ekki allt hægt á tölvuöld? Í framhaldinu rataði Walaa á ágæta úrvinnslu þrátt fyrir afar trausta spriklleiki frá Sævari - Bg4, takk fyrir, var skemmtileg tilraun og ég hefði stoltur reynt þetta sjálfur!

Staðan er því þannig að Lenka og Walaa eru efst með fullt hús en Bragi og Hjörvar eru í 3-4.sæti með 1,5 vinninga af tveimur. Þessir fjórir keppendur mætast einmitt á morgun því Lenka fær hvítt á Hjörvar og Bragi fær hvítt á Walaa. Uppgjör IM-anna verður afar spennandi en ég býð spenntastur eftir skák Lenku og Hjörvars því sigur hjá öðrum keppandanum myndi setja viðkomandi í sterka stöðu varðandi áfangamöguleika. Sævar mætir síðan Fonseca, Omar fær hvítt á undirritaðan og Ingvar fær hvítt á Misiuga. Ég hlakka til morgundagsins og vonandi sé ég sem flesta á skákstað. Kaffið er heitt, kökurnar góðar og aldrei að vita hvenær Húnsvöflurnar láta á sér kræla þökk sé Gunnari Bastardo Björnssyni sem lofaði því í opnunarræðu sinni. Ég skorast aldrei undan, sveiattann.

Kveðja Björn Bræðraþel Þorfinnsson.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Taflfélagið Hellir

Blessaður Gunnar.

Mótið klárast í næstu viku, þú hefur nægan tíma. Kaffið verður ennþá sjóðandi :) Allt að gerast á milli 19-20, þá eru flestar skákinar að klárast.

kv. Bjössi

Taflfélagið Hellir, 22.6.2007 kl. 00:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Félagið

Taflfélagið Hellir
Taflfélagið Hellir

Burtséð frá öllum titlum - einfaldlega besta og flottasta félagið

Barna- og unglingastarf

Nýjustu myndir

  • 20180226 190425
  • 25487568 10155932818829719 8703472418909412982 o
  • 25487568 10155932818829719 8703472418909412982 o

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 83172

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Framundan

Íslandsmótið í netskák 2013

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband